Endajaxlarnir eru síðustu tennurnar sem koma í
munninn, koma oftast fram í kringum tvítugt.
Stundum eru væg óþægindi tengd uppkomu þeirra, slíkt er eðilegt og
gengur oftast yfir á nokkrum dögum. Ef
endajaxlarnir hafa á annað borð nægt pláss og komast óhindrað upp þarf
venjulega ekki að fjarlægja þá.
Mjög oft er þó ekki nægt pláss fyrir
endajaxlana. Þeir koma þá ýmist ekki
fram í munninn eða koma aðeins upp að hluta og oft í rangri stöðu, liggja til
dæmis á hliðinni eða vísa aftur á bak í munninn. Vonlaust er að bursta þannig endajaxla eða
nota tannþráð við þá. Þeir geta verið
einkennalausir lengi en á endanum er afar líklegt að þeir verið til vandræða.
Þeir geta skemmst, oft fylgir þeim vond lykt , verkir og bólga sem kemur til af
sýkingu í tannholdinu við jaxlana. Í
verstu tilfellunum geta svoleiðis sýkingar orðið alvarlegar. Ef jaxlinn liggur á hliðinni getur sýkingin
dreift úr sér í jaxlinn framan við endajaxlinn og skaðað hann.
Almennt gildir sú regla að tennur (og þar með
endajaxla) sem ekki komast eðlilega fram í munninn er best að fjarlægja á
aldrinum 18 – 30 ára, helst áður en einhver vandamál koma upp. Á þessum aldri er aðgerðin auðveldust og
sjúklingurinn fljótur að jafna sig.
Auðvitað má fjarlægja endajaxlar síðar á ævinni og það gengur venjulega
vel fyrir sig.
Tannplantar, eða implönt, eru litlar skrúfur
úr títaníum-málmi, sem hægt er að græða í kjálkabein. Tannplantar koma í raunninni í staðinn fyrir
rætur tanna sem vantar.
Þegar tannplanti kemur í stað stakrar tannar
sem hefur tapast er tannplantinn settur í þar sem rót tannarinnar var og ofan á
hann er smíðuð króna sem líkist raunverulegri tönn.
Tannplanta má einnig nota þar sem margar
tennur vantar og þá eru settir tveir eða fleiri með nokkru millibili og þeir
notaðir sem undirstöður fyrir brú.
Það er alla jafna lítil aðgerð að koma tannplanta fyrir í kjálkabeini. Aðgerðin
er framkvæmd í staðdeyfingu. Tannholdinu
er ýtt ögn til hliðar og plantanum er komið fyrir. Síðan er tannholdið saumað til baka. Eftir 7
– 10 daga er tannholdið gróið og þá má fjarlægja saumana.
Tannplanti þarf venjulega að gróa fastur við
beinið áður en endanlegri krónu er komið fyrir. Það tekur 6 – 12 vikur, í
undantekningartilfellum lengur. Þegar
tannplantinn er að fullu gróinn situr hann mjög fastur í beininu og getur
haldið uppi krónu, brú eða verið festing fyrir lausan góm.
Á stofunni notum við aðeins Straumann og Dentsply Astra Tech tannplanta. Bæði þessi tannplantakerfi eru í hópi mest rannsökuðu og notuðu tannplantakerfa í heiminum í dag.
Undanfarin ár hafa orðið gífurlegar framfarir í tannplantameðferð með tilkomu þrívíddartækni. Á munn- og kjálkskurðlæknastofunni notum við alla þessa nýjustu tækni við undirbúning og útfærslu tannplantaaðgerða.
Þegar tannplanti er græddur í kjálkabein er
nauðsynlegt að hann sé settur á kaf í bein og að enginn hluti hans standi utan
beinsins. Stundum er þó ekki nægt bein
til staðar til þess að þetta sé hægt. Þá er hægt að bæta við því beini sem upp
á vantar og það er ýmist gert á sama tíma og tannplantinn er græddur í eða í
sérstakri aðgerð 4-6 mánuðum áður.
Þegar byggja þarf upp bein er alltaf best að
nota bein úr sjúklingnum sjálfum. Það er
fullt af beinmyndandi frumum sem hraða græðslu og gefa sterkt og gott bein sem
heldur tannplantanum örugglega.
Að
sækja bein til uppbyggingar er í flestum tilfellum tiltölulega lítil
aðgerð sem er framkvæmd í staðdeyfingu.
Ef ekki þarf mikið bein má nota beinið úr holunni sem er boruð út fyrir
tannplantann. Ef meira þarf af beini má
nálgast gott bein í neðri kjálka þar sem endajaxlarnir eru (oft eru þeir
fjarlægðir í leiðinni). Í þeim tilfellum
þar sem mjög mikið þarf af beini er hægt að ná í bein úr mjaðmarkambinum. Þá er aðgerðin gerð á sjúkrahúsi í svæfingu.
Nota má gervibein til þess að byggja upp svæði
þar sem vantar bein. Helsti kosturinn
við gervibein er að þá þarf ekki að ná í bein annars staðar. Á hinn bóginn er gervibein dýrt og umbreytist
mjög hægt í venjulegt bein og aldrei að fullu.
Þess vegna þarf að bíða talsvert lengur áður en tannplöntum er komið
fyrir þar sem gervibein hefur verið notað til uppbyggingar, oft 6 – 9 mánuði.
Talið er að mikil frávik í kjálkavexti komi
fyrir hjá um 1 – 2% fólks. Oftast er um
að ræða yfirbit, þar sem neðri kjálkinn er of lítill (stuttur) m.v. þann
efri. Önnur frávik eru skúffa
(undirbit), þar sem neðri kjálkinn er of stór m.v. þann efri og „opið“ bit, þar
sem efri og neðri framtennur snertast ekki þegar sjúklingurinn bítur
saman.
Ef frávikið er of mikið til þess að það megi
lagfæra með tannréttingu einni saman þarf að gera kjálkaaðgerð. Hún er framkvæmd þegar öruggt er að sjúklingurinn
hefur lokið vexti, yfirleitt í kringum tvítugt.
Meðferðin hefst alltaf á tannréttingu. Komið er fyrir „teinum“ á báða tannbogana og
tennurnar réttar þannig að þær passi sem best saman eftir aðgerðina. Þessi fyrsti hluti meðferðarinnar tekur eitt
til tvö ár.
Þegar tannréttingarlæknirinn telur tímabært að
gera kjálkaaðgerðina þarf að ákveða í hverju hún á að felast. Ýmist er gerð aðgerð á öðrum eða báðum
kjálkum (þ.e. efri og/eða neðri).
Yfirbit er oftast lagfært með aðgerð á neðri kjálka einum en undirbit er
lagfært ýmist með aðgerð á öðrum kjálkanum eða báðum. Ef ekki er aðeins um að ræða frávik í stærð
kjálkanna, heldur líka skekkju í vextinum (þannig að munur er á hægri og vinstri
hlið) þarf alltaf að gera aðgerð á báðum kjálkum. Opið bit er oftast lagfært með aðgerð á efri
kjálka.
Þegar kjálkaaðgerðin er búin og beinið gróið
má klára tannréttinguna. Sá hluti tannréttinganna tekur a.m.k. 6 mánuði og oft í kringum eitt ár. Í heildina má reikna með tveimur til þremur
árum í heildarmeðferðartíma, jafnvel lengri tíma í einhverjum tilfellum.
Sjá nánar undir spurningar og svör undir
liðnum „Kjálkaaðgerðir“.