Endajaxlar

Endajaxlarnir eru síðustu tennurnar sem koma í munninn, koma oftast fram í kringum tvítugt.

Stundum eru væg óþægindi tengd uppkomu þeirra, slíkt er eðilegt og gengur oftast yfir á nokkrum dögum.  Ef endajaxlarnir hafa á annað borð nægt pláss og komast óhindrað upp þarf venjulega ekki að fjarlægja þá. 

Mjög oft er þó ekki nægt pláss fyrir endajaxlana. Þeir koma þá ýmist ekki fram í munninn eða koma aðeins upp að hluta og oft í rangri stöðu, liggja til dæmis á hliðinni eða vísa aftur á bak í munninn.  Vonlaust er að bursta þannig endajaxla eða nota tannþráð við þá.   Þeir geta verið einkennalausir lengi en á endanum er afar líklegt að þeir verið til vandræða. Þeir geta skemmst, oft fylgir þeim vond lykt , verkir og bólga sem kemur til af sýkingu í tannholdinu við jaxlana.  Í verstu tilfellunum geta svoleiðis sýkingar orðið alvarlegar.  Ef jaxlinn liggur á hliðinni getur sýkingin dreift úr sér í jaxlinn framan við endajaxlinn og skaðað hann. 

Almennt gildir sú regla að tennur (og þar með endajaxla) sem ekki komast eðlilega fram í munninn er best að fjarlægja á aldrinum 18 – 30 ára, helst áður en einhver vandamál koma upp.  Á þessum aldri er aðgerðin auðveldust og sjúklingurinn fljótur að jafna sig.  Auðvitað má fjarlægja endajaxlar síðar á ævinni og það gengur venjulega vel fyrir sig.

Framtennurnar í neðri gómi eru farnar að skekkjast. Eru endajaxlarnir að ýta á tennurnar og valda þessu?
Nei. Rannsóknir síðustu áratugina benda eindregið þess að þetta sé langlíf þjóðsaga. Skekkja á framtönnum í neðri gómi (kölluð „late anterior crowding“ á ensku) er nokkuð sem mörg okkar upplifa í kringum tvítugt. Þar sem endajaxlarnir eru að koma upp á þessum sama aldri hefur þeim í gegnum tíðina verið kennt um þetta. Hins vegar virðist þetta gerast hvort sem þeir eru til staðar eða ekki og þeir eru því hafðir fyrir rangri sök.

Hverjar eru helstu ástæður þess að fjarlægja þarf endajaxla?
Oftast þarf að fjarlægja endajaxla vegna þess að þeir hafa ekki nægt pláss. Þá gengur illa að halda þeim hreinum. Matur og bakteríur úr munnholinu pakkast gjarnan undir slímhúð sem liggur yfir krónu endajaxlsins og á endanum skemmist jaxlinn eða vefurinn umhverfis krónuna sýkist.

Stundum liggja endajaxlar á hliðinni og í þeim tilfellum eiga þeir til að eyða beini frá tönninni fyrir framan (12 ára jaxlinum) og jafnvel valda þeir eyðingu á 12 ára jaxlinum sjálfum.

Í sjaldgæfum tilfellum getur myndast góðkynja blaðra (sk. belgmein) utan um krónu endajaxlsins. Svoleiðis blaðra getur orðið mjög stór og veikt kjálkann. Ef hún brýtur sér leið út úr kjálkabeininu geta komist bakteríur ofan í hana og valdið slæmri sýkingu.

Hvað tekur endajaxlaaðgerð langan tíma?
Hjá sérfræðingi, sem fjarlægir marga endajaxla í hverri viku, tekur endajaxlaaðgerð þar sem tveir beinfastir endajaxlar eru fjarlægðir venjulega um 25-45 mínútur frá því er deyft og þar til síðasti saumurinn er settur.

Hvað þarf ég að vera lengi frá vinnu/skóla eftir endajaxlaaðgerð?
Það er mjög misjafnt hversu lengi sjúklingar eru með verki, en almennt má reikna með að taka sér frí á aðgerðardegi og daginn eftir.

Hvaða verkjalyf eru gefin eftir endajaxlaaðgerð?
Gefið er lyfseðilsskylt bólgueyðandi verkjalyf eins og Íbúfen, Naproxen eða Voltaren Rapid. Með því er gott að taka paracetamól (Panodil, Paratabs) sem má kaupa án lyfseðils. Sú blanda veitir mjög góða verkjastillingu í langflestum tilfellum.

Get ég fengið róandi lyf fyrir endajaxlaaðgerð?
Já, það er hægt að fá róandi lyf fyrir aðgerðina. Það er gefið rétt áður en er deyft, virkar hratt og yfirleitt mjög vel. Lyfið er til þess að gera stuttverkandi en þú þarft að hafa með þér fullorðinn fylgdarmann sem þú treystir og getur keyrt þig heim og verið hjá þér í a.m.k. 6 klst. eftir aðgerðina.

Er hægt að láta gera aðgerðina í svæfingu?
Venjulega er ekki þörf á að framkvæma endajaxlatökur í svæfingu, en sé þess raunverulega þörf getum við boðið upp á það. Þar sem aðgengi að svæfingum er takmarkað getum við því miður ekki boðið hverjum þeim sem þess óskar upp á þennan möguleika. Fyrir þá sem eru mjög kvíðnir fyrir endajaxlatöku dugar í langflestum tilfellum að gefa róandi lyf.

Þarf að taka saumana?
Ekki er þörf á að koma sérstaklega til þess að láta taka sauma. Notaður er uppleysanlegur saumur sem oftast er u.þ.b. 5-10 daga að leysast upp.