Svæfingar

Við erum reglulega með aðgerðir í svæfingu á Handlæknastöðinni í Glæsibæ.

Langflestar þær aðgerðir sem við framkvæmum er hægt að gera í venjulegri staðdeyfingu. Ef sjúklingurinn er kvíðinn má gefa róandi lyf fyrir aðgerðina. Mjög kvíðnir sjúklingar gætu hins vegar þurft á svæfingu að halda, jafnvel þótt aðgerðin sé venjulega gerð án svæfingar.
Eðlilega þarf oft að framkvæma aðgerðir á börnum í svæfingu, sérstaklega yngri börnum.

Sumar aðgerðir eru það umfangsmiklar að þær þarf að gera í svæfingu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Dæmi um slíkar aðgerðir eru þegar fjarlægð eru stór æxli úr kjálkunum eða þegar stór tannlaus svæði eru byggð upp fyrir tannplantameðferð.

Hvað kostar svæfing?
Kostnaður við svæfingu er mismunandi eftir því hvort Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hana að hluta eða hvort sjúklingurinn greiðir allt gjaldið sjálfur. Klukkustundar löng svæfing sem sjúklingur greiðir sjálfur að fullu kostar u.þ.b. 60.000 krónur.

Er hægt að fá almennar tannviðgerðir hjá ykkur í svæfingu?
Við bjóðum ekki upp á neinar almennar tannlækningar, hvorki í svæfingu né í staðdeyfingu.  Stofan er alveg sérhæfð í skurðlækningum í munni og kjálkum.

Hvernig þarf að undirbúa sig fyrir svæfingu?
Fasta: Mjög mikilvægt er að vera fastandi frá miðnætti kvöldið fyrir aðgerðardaginn. Það þýðir að sjúklingurinn má alls ekkert borða frá þeim tíma. Tæra vökva (t.d. vatn og djús, ekki mjólk) má drekka í litlu magni þar til 3 klst. fyrir aðgerð.

Föt: Gott er að vera í þægilegum og léttum fötum.

Fylgd: Mikilvægt er að koma ekki einn í svæfingu heldur hafa með sér fylgdarmann sem getur fylgt sjúklingi heim eftir svæfinguna.

Hvernig þarf að undirbúa sig fyrir svæfingu?
Venjulega tekur aðeins skamma stund að vakna eftir svæfingu og flestir eru farnir heim 1 – 2 klst. eftir að aðgerð er lokið. Eftir svæfingu er eðlilegt er að vera örlítið sár í hálsinum í 1 eða 2 daga.

Barnið mitt þarf svæfingu fyrir aðgerð sem er að fullu greidd af Sjúkratrygginum Íslands. Samt þarf ég að greiða aðstöðugjald. Hvernig stendur á því?
Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki viljað semja um endurgreiðslu þess gjalds sem einkareknar skurðstofur innheimta fyrir afnot af húsnæði og tækjum. Þess vegna lendir greiðsla þessa gjalds á foreldrum barna þó svo eigi að heita að tannlækningar barna þeirra séu að fullu endurgreiddar. Þessi kostnaður fellur óhjákvæmilega til og það er alfarið ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að endurgreiða hann ekki.