Beinuppbygging

Þegar tannplanti er græddur í kjálkabein er nauðsynlegt að hann sé settur á kaf í bein og að enginn hluti hans standi utan beinsins.

 Stundum er þó ekki nægt bein til staðar til þess að þetta sé hægt. Þá er hægt að bæta við því beini sem upp á vantar og það er ýmist gert á sama tíma og tannplantinn er græddur í eða í sérstakri aðgerð 4-6 mánuðum áður. 

Þegar byggja þarf upp bein er alltaf best að nota bein úr sjúklingnum sjálfum.  Það er fullt af beinmyndandi frumum sem hraða græðslu og gefa sterkt og gott bein sem heldur tannplantanum örugglega.  

Að  sækja bein til uppbyggingar er í flestum tilfellum tiltölulega lítil aðgerð sem er framkvæmd í staðdeyfingu.  Ef ekki þarf mikið bein má nota beinið úr holunni sem er boruð út fyrir tannplantann.  Ef meira þarf af beini má nálgast gott bein í neðri kjálka þar sem endajaxlarnir eru (oft eru þeir fjarlægðir í leiðinni). Í þeim tilfellum þar sem mjög mikið þarf af beini er hægt að ná í bein úr mjaðmarkambinum.  Þá er aðgerðin gerð á sjúkrahúsi í svæfingu. 

Nota má gervibein til þess að byggja upp svæði þar sem vantar bein. Helsti kosturinn við gervibein er að þá þarf ekki að ná í bein annars staðar.  Á hinn bóginn er gervibein dýrt og umbreytist mjög hægt í venjulegt bein og aldrei að fullu.  Þess vegna þarf að bíða talsvert lengur áður en tannplöntum er komið fyrir þar sem gervibein hefur verið notað til uppbyggingar, oft 6 – 9 mánuði.

Hvað er gervibein?
Með orðinu „gervibein“ er átt við efni sem er ígræðanlegt og kemur í stað náttúrulegs beins. Til eru margar tegundir af gervibeini. Kosturinn við að nota gervibein er að þá þarf ekki að gera aðgerð til að sækja bein annars staðar.
Á stofunni okkar notum við helst tvær tegundir gervibeins. Annars vegar notum við bein sem er unnið úr lærleggjum nautgripa eða svína sem eru alin sérstaklega í þeim tilgangi að framleiða gervibein. Beinin eru mulin og hituð við mjög háan hita til þess að fjarlægja allt lífrænt efni úr þeim. Eftir situr hreint kalk sem nota má í stað raunverulegs beins.
Hins vegar notum við bein sem er framleitt frá grunni úr ólífrænu efni. Slíkt bein inniheldur tvær tegundir af kalki (hydroxyapatit og tricalciumphosphat). Hvoru tveggja eru efni sem finnast í náttúrulegu beini. Kosturinn við að nota gervibein sem er framleitt með þessum hætti er að stærri hluti þess eyðist með tímanum og í stað hans kemur náttúrulegt bein.

Er gervibein öruggt?
Já, gervibein er notað á mörgum sviðum læknisfræði og hefur verið notað í tannlækningum í áratugi. Fjöldi rannókna liggur fyrir sem staðfesta öryggi þeirra tegunda gervibeins sem við notum á stofunni.

Er alltaf hægt að nota gervibein þegar þarf að byggja upp bein?
Það er í flestum tilfellum hægt að nota eingöngu gervibein, sérstaklega þar sem ekki vantar mjög mikið af beini. Þegar gera þarf stóra uppbyggingu yfir stærra svæði, gæti þurft að nota sækja bein aftast úr kjálka eða á mjaðmarkamb.

Er mikil aðgerð að sækja bein úr neðri kjálka?
Að sækja bein úr neðri kjálka tekur stutta stund og skilur eftir sig sár sem er ekki ólíkt sári eftir endajaxlaúrdrátt. Það er eðlilegt að bólgna nokkuð þar sem bein er sótt og fá marblett.