Röntgen og sneiðmyndir

Við bjóðum upp á röntgenmynda- og sneiðmyndatökur eftir tilvísun frá öðrum tannlæknum.

CBCT myndir

Á stofunni Í Bæjarlind 12 er nýtt Planmeca ProMax 3D Mid sneiðmyndatæki.

Tækið getur tekið orthopanmyndir, hliðarröntgenmyndir og CBCT sneiðmyndir. CBCT myndirnar má taka með minnst 34×42 mm FOV (3-4 tannstæði) og mest 200×170 mm FOV (öll höfuðkúpan).

Margir kostir eru við að nota CBCT tækni við sneiðmyndatöku. Sá stærsti er að sjúklingurinn verður fyrir töluvert minni geislun en við hefðbundna sneiðmyndatöku.

Af gefnu tilefni bendum við sjúklingum á að við tökum ekki röntgenmyndir eða CBCT myndir án beiðni frá tannlækni sem fyrst hefur skoðað sjúklinginn og ákveðið að þörf sé á myndatöku.

Tilvísun í CBCT sneiðmynd

Leiðbeiningar um tilvísanir

Til þess að skilyrði laga og reglugerða séu uppfyllt þurfum við að biðja tilvísandi tannlækna um að hafa eftirfarandi í huga þegar þeir senda til okkar sjúklinga í CBCT myndatöku.

‍Tilvísun:
Tilvísun þarf að berast okkur í tölvupósti eða yfir Heklu heilbrigðisnet. Við getum því miður ekki tekið við sjúklingum án tímapöntunar eða tilvísunar. Eftirtalið þarf að koma fram í tilvísuninni:

a) Nafn, kennitala og símanúmer sjúklings
b) Núverandi vandamál, einkenni og klínísk greining
c) Spurning (hvaða upplýsingar rannsóknin á að veita)
d) Ef til eru hefðbundnar röntgenmyndir af því svæði sem er óskað eftir mynd af, er gott að þær fylgi með.

Neðst á síðunni er hlekkur á tilvísunareyðublað.

‍Réttlæting CBCT rannsóknar:
‍Í leiðbeiningum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út: Radiation Protection no 172: Cone beam CT for dental and maxillofacial radiolgy (Evidence-based guidelines), er að finna upplýsingar um þær ábendingar sem taldar eru réttlæta CBCT rannsóknir, auk ábendinga sem ekki eru taldar réttlæta slíkar rannsóknir.